Gréta María Grétarsdóttir hefur verið ráðin forstjóri Arctic Adventures og tekur við af Styrmi Þór Bragasyni, samkvæmt heimildum Innherja . Gréta María hefur setið í stjórn Arctic Adventures frá sumrinu 2020.

Tilkynnt var í gær að Gréta María hefði óskað eftir að láta af störfum sem framkvæmdastjóri nýsköpunar, samfélagsábyrgðar og fjárfestatengsla hjá útgerðarfélaginu Brimi en hún tók við þeirri stöðu í febrúar síðastliðnum. Hún hefur setið í fjölmörgum stjórnum og einnig sinnt kennslu við verkfræðideild Háskóla Íslands og við MPM nám í verkefnastjórn. Gréta María lauk meistaragráðu í verkfræði frá Háskóla Íslands árið 2008

Gréta María var framkvæmdastjóri Krónunnar á árunum 2018-2020 og hlaut á þeim tíma Viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Þar áður var hún fjármálastjóri Festi frá árinu 2018.

Arctic Adventures er meðal stærstu ferðaþjónustufyrirtækja landsins. Fyrirtækið skipuleggur, selur og sér um framkvæmd ferða og afþreyingar.