Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur og aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, VÍ, mun láta af störfum hjá samtökunum í byrjun næsta árs. Þetta kemur fram í Facebook-færslu Konráðs.

„Eftir fjögur ótrúlega lífleg og lærdómsrík ár verður komið að leiðarlokum hjá Viðskiptaráði snemma á næsta ári. Þakklátur mörgu en fyrst og fremst frábæru núverandi og fyrrverandi samstarfsfólki. Segir maður ekki núna að það séu spennandi tímar framundan? Hvað svo sem kann að vera framundan,“ skrifar Konráð.

Hann var ráðinn sem hagfræðingur hjá Viðskiptaráði í ársbyrjun 2018 og tók svo við stöðu aðstoðarframkvæmdastjóra sumarið 2020. Konráð starfaði þar áður í þrjú ár sem sérfræðingur í greiningardeild Arion banka. Þar áður starfaði hann um hríð sem hagfræðingur á skrifstofu forseta Tansaníu, hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og var starfsnemi hjá Þróunarsamvinnustofnun Íslands í Úganda.

Hann er með meistaragráðu í hagfræði frá Warwick háskóla í Bretlandi og BS. próf í hagfræði frá Háskóla Íslands.