Kristófer Þór Magnússon hefur verið ráðinn verkefnastjóri í viðskiptaþróun hjá Origo. Hann mun koma að markaðsgreiningum, markhópagreiningum, gerð viðskiptaáætlana í samvinnu við vörueigendur ásamt því að vinna að úrbótatækifærum fyrir Origo.

Kristófer kemur frá fyrirtækjaráðgjöf EY á Íslandi þar sem hann var verkefnastjóri og kom að kaup- og söluferlum fyrirtækja ásamt stefnumótun fyrir fyrirtæki. Áður var Kristófer ráðgjafi hjá Oliver Wyman í Svíþjóð en þar kom hann að ýmsum verkefnum þ.m.t. stefnumótun hjá fyrirtækjum víðs vegar í Evrópu. Kristófer er með mastersgráðu í verkfræði frá Kungliga Tekniska Högskolan í Stokkhólmi.

„Við erum heppin að fá Kristófer til liðs við okkur þar sem við erum að styrkja viðskiptaþróun og setja fókus á vörur sem bæta líf fólks og viðskiptavina okkar. Hans greiningarhæfni og reynsla í stefnumótun mun nýtast Origo mjög vel í þeirri vegferð sem við erum á næstu misserin,“ segir Sylvía Kristín Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri á viðskiptaþróunar- og markaðssviði Origo, í fréttatilkynningu.