Magnús Magnússon, aðstoðarforstjóri og framkvæmdastjóri stefnumótunar og rekstrar hjá Högum, var kjörinn í stjórn Frumtaks Ventures á aðalfundi félagsins sem haldinn var í gær.

Ásamt Magnúsi sitja í stjórn félagsins þau Magnús Torfason, dósent á sviði nýsköpunar og viðskiptaþróunar við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, sem jafnframt gegnir stöðu stjórnarformanns, og Sigríður Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri hjá Experian í Bretlandi.

Magnús hefur mikla reynslu af stefnumótun og mati fjárfestingakosta, bæði hérlendis og erlendis. Áður en hann hóf störf hjá Högum leiddi hann stefnumótunarteymi Marel í þrjú ár. Þar áður starfaði Magnús sem ráðgjafi hjá alþjóðlega ráðgjafafyrirtækinu McKinsey & Company þar sem hann aðstoðaði fjölda alþjóðlegra fyrirtækja við stefnumótun, rekstrarumbætur og stærri umbreytingar.

Hann hefur einnig starfað hjá hugbúnaðarfyrirtækinu AGR Dynamics. Magnús er með meistaragráðu í iðnaðarverkfræði og aðgerðagreiningu frá UC Berkeley í Kaliforníu, og B.Sc. gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands. Í tengslum við starf sitt situr Magnús í stjórnum nokkurra dótturfélaga Haga sem og stjórn Viðskiptaráðs Íslands.

Gunnar Engilbertsson, sem setið hefur í stjórn félagsins frá árinu 2015, lét af störfum og er honum þakkað í tilkynningu fyrir farsælt samstarf.