Aðalfundur Samtaka ferðaþjónustunnar árið 2024 fór fram á Hilton Reykjavík Nordica, fimmtudaginn 21. mars. Í aðdraganda aðalfundar fór fram rafræn kosning meðal félagsmanna um 3 meðstjórnendur í stjórn SAF til næstu tveggja, ára ásamt því að kjörinn var formaður. Á fundinum var Pétur Óskarsson, framkvæmdastjóri Viator ehf., kjörinn formaður SAF til næstu tveggja ára. Tekur Pétur við formennskunni af Bjarnheiði Hallsdóttur, framkvæmdastjóra Kötlu-DMI, sem verið hefur formaður SAF frá árinu 2018.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu þar sem segir að Bjarnheiði hafi á fundinum verið færðar bestu þakkir fyrir vel unnin störf á vettvangi SAF og íslenskrar ferðaþjónustu undanfarin sex ár með standandi lófataki.

Pétur Óskarsson ásamt Bjarheiði Hallsdóttur, fyrrverandi formanni SAF, og framkæmdastjóranum Jóhannesi Þór Skúlasyni.
© BIG (VB MYND/BIG)

Ragnhildur Ágústsdóttir, stofnandi og eigandi Lava Show, Erna Dís Ingólfsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Íslandshótelum og Björn Ragnarsson, forstjóri Icelandia hlutu kjör í stjórn SAF til næstu tveggja ára.

Hildur Guðbjörg Kristjánsdóttir, eigandi Midgard og Sævar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Ferðaþjónustunnar Mjóeyri við Eskifjörð hlutu færri atkvæði og eru því varamenn í stjórn SAF starfsárið 2024 – 2025.

Ásamt þeim sitja í stjórninni þau Rannveig Grétarsdóttir, eigandi Eldingar og Akureyri Whale Watching, Helgi Már Björgvinsson, yfirmaður alþjóðasamskipta hjá Icelandair og Nadine Guðrún Yaghi, forstöðumaður samskipta og þjónustu hjá Play.

Ný stjórn SAF.
© BIG (VB MYND/BIG)