„Mér líst bara ljómandi vel á þetta, það eru spennandi verkefni hér innandyra sem og tækifæri á markaðnum, það er ekki spurning," segir Sturla Gunnar Eðvarðsson, nýr framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá fasteignafélaginu Eik.

Sturla segir mikil tækifæri liggja í því að byggja upp og gera breytingar á núverandi mannvirkjum. Sturla bætir við að Covid hafi búið til nýjar og skemmtilegar áskoranir fyrir félagið þegar kemur að atvinnu- og verslunarhúsnæði. „Fólk er farið að vinna meira heima og skrifstofuhald er orðið sveigjanlegra. Það þarf að horfa í alla þessa þætti við hönnun skrifstofa og mannvirkja. Í verslunarmálum eru einnig miklar áskoranir. Netverslun er í miklum vexti, sérstaklega í kjölfar faraldursins."

Sturla er menntaður rekstrarfræðingur frá Háskólanum á Bifröst og hefur verið viðloðandi verslunarmál síðastliðin þrjátíu ár. Hann var framkvæmdastjóri Samkaupa og þar áður framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli. Nýlega lauk hann tíu ára starfi sem framkvæmdastjóri Smáralindar, þar sem hann vann að allsherjar endurskipulagningu og uppbyggingu á verslunarmiðstöðinni. „Við endurskipulögðum allar verslanir með tilliti til framboðs til neytenda og lögðum áherslu á að gera verslanirnar aðgengilegri fyrir neytendur. Við fórum einnig að sækja öflug erlend vörumerki eins og Monki, H&M og Weekday."

Sturla er giftur Ingibjörgu Gunnarsdóttur leiðsögumanni, en þau eiga fjögur börn saman auk sjö barnabarna. Hann er fæddur og uppalinn Vestfirðingur frá Súgandafirði, en býr í Kópavogi í dag. „Ég er mikill áhugamaður um fluguveiði og reyni að veiða sem mest á sumrin. Ég hef líka mjög gaman af golfi og hef farið í margar golfferðirnar, til Bandaríkjanna, Portúgals og Bretlands svo eitthvað sé nefnt."

Sturlu skortir ekki áhugamálin en hann er afar handlaginn. „Ég er með smíðaverkstæði í bílskúrnum og smíða allt milli fjalls og fjöru. Ég vann við smíðar þegar ég var ungur og fékk áhuga fyrir því og það er mjög gaman að geta gripið í það. Ég hef mjög gaman af því að setja mér markmið og klára þau og gera það vel."

Nánar er rætt við Sturlu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .