Ávöxtun Lífeyrissjóðs verzlunarmanna var 7% á árinu 2007 sem samsvarar tæplega 1% raunávöxtun.

Í frétt á heimasíðu sjóðsins kemur fram að meðalraunávöxtun síðustu 5 ára nam 10,6%. Innlent hlutabréfasafn sjóðsins sýndi 6,9% ávöxtun á árinu en á sama tíma lækkaði Úrvalsvísitala aðallista Kauphallar Íslands um 1,4%. Uppsöfnuð umframávöxtun LV á innlenda hlutabréfasafnið nemur 102% á síðustu 11 árum umfram hækkun Úrvalsvísitölunnar. Ávöxtun erlenda verðbréfasafnsins var góð á árinu en styrking íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum ásamt veikingu USD dró ávöxtun erlendu verðbréfanna niður. Gengisvarnir drógu verulega úr áhrifum af styrkingu krónunnar segir í fréttinni.

Unnið er að endurskoðun ársreiknings LV en eignir sjóðsins námu um 268 milljörðum í árslok 2007 og hækkuðu um 28 milljarða á árinu eða um 12%. Á árinu 2007 greiddu 51 þúsund sjóðfélagar til sjóðsins og námu iðgjaldagreiðslur alls 15 milljörðum. Þá greiddu 7 þúsund fyrirtæki til sjóðsins vegna starfsmanna sinna. Á árinu 2007 nutu liðlega 8 þúsund lífeyrisþegar lífeyrisgreiðslna að fjárhæð 4,1 milljarður.

“Afkoma sjóðsins á fyrri árshelmingi var góð en á síðari helmingi ársins tóku verðbréfamarkaðir að lækka samfara erfiðleikum á fasteignalánamarkaði í Bandaríkjunum og lausafjárþurrð sem fylgdi í kjölfarið. Innlent hlutabréfasafn sjóðsins sýndi góðan árangur á árinu eða ávöxtun upp á tæp 7% á sama tíma og innlendar hlutabréfavísitölur lækkuðu. Gengisvarnir drógu úr neikvæðum áhrifum styrkingar íslensku krónunnar. En það eru vissulega vonbrigði að geta ekki hækkað lífeyrisréttindi sjóðfélaga um þessi áramót eins og útlit var fyrir þegar árið var hálfnað,“ sagði Þorgeir Eyjólfsson forstjóri Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, í fréttinni.