Samfélagsstyrkir Landsbankans voru veittir í gær. Alls fengu 26 verkefni styrk. Tvö verkefni hlutu hvort um sig eina milljón króna, átta verkefni 500 þúsund krónur hvert og sextán verkefni 250 þúsund krónur.

ABC barnahjálp fékk eina milljón í styrk, til þess að kaupa bækur fyrir skóla í Pakistan. Þá fékk Borgar Magnason sömu upphæð vegna samantektar og úrvinnslu á höfundarverki Atla Heimis Sveinssonar tónskálds.

Í tilkynningu frá bankanum segir að samfélagsstyrkjum sé ætlað að styðja við þá sem sinna mannúðar- og líknarmálum, menntamálum, rannsóknum og vísindum, verkefnum á sviði menningar og lista, forvarnar- og æskulýðsstarfi og sértækri útgáfustarfsemi.

Um 400 umsóknir bárust sjóðnum að þessu sinni. Samfélagsstyrkir verða veittir aftur í lok þessa árs.