Nordic Enterprises Ltd., eignarhaldsfélag um heyrnartólavörumerkin BuddyPhones og ONANOFF, hefur lokið hlutafjáraukningu sem nemur um 4,5 milljónum Bandaríkjadala, eða um 550 milljónum króna. Centra Fyrirtækjaráðgjöf leiddi undirbúning, samninga og veitti Nordic Enterprises ráðgjöf í fjármögnunarferlinu.

Nordic Enterprises, sem stofnað var af þeim Pétri Hannesi Ólafssyni og Bjarka Viðari Garðarssyni, hefur selt yfir 2,5 milljónir sérhæfðra heyrnartóla fyrir börn sem eru sérstaklega gerð til að valda ekki heyrnarskaða með hámarksstillingu. Pétur Hannes, sem er framkvæmdastjóri félagsins, segir að allt frá því að fyrirtækið setti BuddyPhones á markað hafi það verið leiðandi í þróun heyrnartóla fyrir börn og skólaumhverfið. Tekjur Nordic Enterprises jukust um 100% í fyrra er rúmlega 850 þúsund heyrnartól seldust.

Pétur Hannes segir hlutafjáraukninguna styðja við frekari vöxt þess, sem m.a. felur í sér útgáfu nýrrar vörulínu, StoryPhones, sem unnin er í samstarfi við stórfyrirtæki á sviði framleiðslu á efni og afþreyingu fyrir börn. Með StoryPhones verði hægt að hlusta á sögur án þess að tengjast snjalltækjum. Auk þess verði mögulegt að taka upp sögur eða söng, sem börnin geta svo hlustað á hvar og hvenær sem er. Gert er ráð fyrir að nýja vörulínan muni koma á markað undir lok þessa árs.

„Það er kominn tími til að færa börnin nær einfaldleikanum hvað varðar afþreyingu og styðja þau í að njóta sagnalistar án þess að þrengja að ímyndunaraflinu eða trufla einbeitinguna á söguna með því sem birtist á skjánum. Börn sem hlusta á sögur skapa sinn eigin hugarheim – sem aftur hefur þroskandi áhrif á sköpunargáfu og námsgetu. Við trúum staðfastlega á að það að auka hlustun en minnka skjátíma í leiðinni leiði til betri svefns, einbeitni og athygli, heima og í skólaumhverfi,“ segir Pétur Hannes.

Að sögn Péturs Hannesar voru það að mestu leyti fjárfestar sem áður höfðu fjárfest í félaginu sem tóku þátt í nýlokinni hlutafjáraukningu en einhverjir nýir hafi einnig bæst í hópinn. „Við fundum fyrir miklum vilja frá fjárfestum til þess að styrkja félagið. Við stofnendur fyrirtækisins erum íslenskir og meirihluti þeirra fjárfesta sem hafa fjárfest í fyrirtækinu eru sömuleiðis íslenskir. Við höfum því mikla tengingu við Ísland, þó svo að bróðurpartur starfseminnar fari fram á erlendri grundu.“

Hann segir stefna í að heyrnartólasalan muni aukast talsvert á þessu ári og reiknar með að ríflega milljón eintök muni seljast.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .