Heildarsala Össurar á fyrsta ársfjórðungi nam 97 milljónum Bandaríkjadala á fyrsta ársfjórðungi samanborið við 86 milljónir dala á fyrsta ársfjórðungi 2010. Er þetta 11% söluaukning milli ára. Sala á spelkum og stuðningsvörum var mjög góð í Bandaríkjunum en í meðallagi í Evrópu og var heildarvöxturinn 20%, mælt í staðbundinni mynt. Sala á stoðtækjum var 5%, mælt í staðbundinni mynt. Össur sýnir áfram góða arðsemi af rekstri. EBITDA nam 18 milljónum Bandaríkjadala eða 19% af sölu. Framlegð nam 61 milljón dala eða 63% af sölu og hagnaður nam 8 milljónum dala eða 8% af sölu.

Jón Sigurðsson, forstjóri:"Árið byrjar vel með góðum árangri á fyrsta ársfjórðungi. Við erum ánægð með niðurstöðurnar og frammistaðan er almennt mjög góð. Nýjar vörur sem kynntar voru á síðasta ári skila mikilvægu framlagi til aukinnar sölu. Góður vöxtur er á báðum vörumörkuðum, sérstaklega á spelku- og stuðningsvörumarkaðnum í Bandaríkjunum þar sem við erum að auka við okkar markaðshlutdeild. Við munum halda áfram að styrkja vörulínur okkar og væntum þess að kynna spennandi vörur á þessu ári."

Helstu áfangar á árinu:

• Mikill vöxtur í spelkum og stuðningsvörum -  Metvöxtur var í sölu á spelkum og stuðningsvörum í Bandaríkjunum á fyrsta ársfjórðungi og hefur Össur náð að auka markaðshlutdeild sína þar. Nýjar vörur sem kynntar voru á markaðnum á síðasta ári, eins og Miami Lumbar og Rebound Walker, eru á meðal söluhæstu vara félagsins og styðja við þennan góða vöxt.

• Mexíkó - Uppbygging á verksmiðju fyrir spelkur og stuðningsvörur í Mexíkó heldur áfram. Á síðasta ári var framleiðsla á hálskrögum flutt frá Allentown og Paulsboro til Mexíkó og á þessu ári verður   framleiðsla á hnéspelkum flutt frá Foothill Ranch í Kaliforníu til Mexíkó.

• Fjármögnun - Í mars gerði Össur samning um langtímafjármögnun við þrjá alþjóðlega banka, ING Bank, Nordea og SEB, að fjárhæð 231 milljón Bandaríkjadala. Lánasamningurinn markar tímamót í fjármögnun félagsins og hefur Össur nú tryggt sér alþjóðlegan aðgang að fjármagni, bæði eigin fé og lánsfé.

Fyrir árið 2011 gera stjórnendur ráð fyrir innri söluvexti á bilinu 4-6%, mælt í staðbundinni mynt, og að EBITDA leiðrétt fyrir einskiptistekjum og -kostnaði verði á bilinu 20-21% fyrir árið í heild. Óbreytt frá áður birtri áætlun fyrir árið 2011.

Þriggja mánaða uppgjör Össurar má sjá hér.