*

þriðjudagur, 27. júlí 2021
Erlent 30. maí 2017 14:30

111 milljóna reikningur

Bilun í tölvukerfi British Airways mun reynast kostnaðarsöm.

Ritstjórn
Associated Press

Greiningaraðilar hjá bandaríska fjárfestingabankanum Citigroup reikna með því að kostnaður International Consolidated Airlines móðurfélags British Airways muni nema 111 milljónum evra vegna bilana í tölvukerfi BA.

Samanstendur upphæðin af 40 milljónum vegna tekjutaps auk þess sem þeir farþegar sem bilunin hafði áhrif á eiga rétt á skaðabótum upp á 60 milljónir evra samkvæmt reglum Evrópusambandsins. Við bætast svo 11 milljónir vegna annars kostnaðar. 

Reiknað er með að um 175.000 farþegar hafi orðið fyrir áhrifum af biluninni sem lamaði nánast allt flug British Airways á laugardag og sunnudag. 

Samkvæmt reglum Evrópusambandsins eiga farþegar rétt á skaðabótum þegar töf á flugi er á ábyrgð flugfélagsins. Nema bæturnar 250 evrum fyrir flug undir 1.500 km, 400 evrum fyrir flug milli 1500 og 3000 km og 600 evrum ef flugið er lengra en 3000 km. Þetta á við ef meira en 4 klukkustunda töf verður á flugi. Við þetta bætast svo greiðslur fyrir hótelgistingu og máltíðir. 

Stikkorð: Airways British