Hagnaður Landsbankans nam um 11,9 milljarða króna eftir skatta á fyrstu sex mánuðum ársins 2012. Hagnaður á öðrum ársfjórðungi var þó mun minni en á þeim fyrsta og skýrist það fyrst og fremst af gjaldfærslu í rekstri bankans vegna endurmats á eignum Spkef. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum.

Hagnaður bankans á fyrri hluta árs hefur lækkað um helming frá sama tíma á síðasta ári en þá var hagnaðurinn 24,4 milljarðar króna. Þessi munur skýrist fyrst og fremst af lægri tekjum af óreglulegum liðum, t.d. hagnaði af hlutabréfum og aflagðri starfsemi.

Arðsemi eigin fjár á fyrri hluta árs 2012 var 11,5% en mældist tæplega 25% á sama tíma fyrir ári. Eiginfjárhlutfall (CAD) Landsbankans er nú 23,3% en var 22,4% fyrir ári.