Um tólf milljarðar af 78 milljarða evra neyðarláni sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Evrópusambandið veita Portúgal verða notaðir til þess að styrkja stöðu banka í landinu. Peningnarnir verða notaðir til að styrkja eiginfjárhlutföll þeirra á næstu 18 mánuðum, að því er Financial Times greinir frá.

José Sócrates, forsætisráðherra bráðabirgðastjórnar Portúgal, ávarpaði þjóðina í gærkvöldi og tilkynnti um að samkomulag hafi náðst um neyðarlán. Þar með varð Portúgal þriðja evruríkið til þess að sækja slíkt lán, á eftir Grikklandi og Írlandi.

Í frétt Financial Times segir að portúgalskir bankar hafi átt í miklum erfiðleikum með að ná sér í fjármagn í kjölfar lækkunar á lánshæfiseinkunn landsins og hafa nærri alfarið treyst á fjármögnun frá Seðlabanka Evrópu.