Tap af rekstri Landsvaka, sem rekur verðbréfa- fjárfestingar- og fagfjárfestingarsjóði Landsbankans, var 13 milljónir króna á síðasta ári, samkvæmt ársreikningi félagsins sem birtur var í dag. Eigið fé félagsins í lok árs 2010 nam 310 milljónum króna. Eiginfjárhlutfall var 83% en má ekki vera lægra en 8% samkvæmt lögum.

Landsvaki annaðist rekstur 21 sjóða í lok árs en á árinu 2010 voru tveimur sjóðum slitið og tveir nýir stofnaðir.  Í árslok nam heildarstærð sjóða í rekstri Landsvaka 53,4 milljörðum króna samanborið við 44 milljarða í árslok 2009.

„Bæði skuldabréfa- og hlutabréfamarkaðir eru enn verulega laskaðir eftir áföll fjármálakreppunnar og mikið vantar enn upp á skilvirkni og dýpt. Þróun þessara markaða hefur mikil áhrif á rekstur sjóða Landsvaka auk þess sem vaxtalækkanir, minnkandi verðbólga og almenn efnahagsþróun hefur áhrif á stöðu félagsins.

Eftir að heildareignir í stýringu minnkuðu verulega í kjölfar falls bankanna í byrjun október 2008 hafa aðstæður breyst til batnaðar. Þróunin á árinu 2010 var sjóðum Landsvaka tiltölulega hagstæð og jukust eignir i stýringu um 23%.  Stærð skuldabréfasjóða jókst þannig um 100% og stærð innlendra hlutabréfasjóða jókst um 148%.  Markaðshlutdeild félagsins jókst á árinu og ávöxtun sjóða félagsins var einnig vel ásættanleg miðað við hefðbundin viðmið.“ segir í tilkynningu félagsins.