Rekstrarhagnaður Bakkavarar  nam 10,9 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins. Veltan var 138,1 milljarður króna sem er 23% aukning, og 47,2 milljarðar króna á þriðja ársfjórðungi sem er 13% aukning.

Vöxtur í undirliggjandi rekstri Bakkavarar var 8,6% á fyrstu níu mánuðum ársins og EBITDA var 14,5 milljarðar króna á fyrstu níu mánuðum ársins, 7% aukning, og 5,0 milljarðar króna á þriðja ársfjórðungi sem er 2% lækkun.

Rekstrarhagnaður (EBIT) 10,9 milljarðar króna fyrstu níu mánuði ársins, 4% aukning, og á þriðja ársfjórðungi 3,8 milljarðar króna, 6% lækkun

Hagnaður fyrstu 9 mánuði ársins var 4,6 milljarðar króna og 1,4 milljarðar króna á þriðja ársfjórðungi

Í tilkynningu kemur fram að tvær yfirtökur á tímabilinu styrktu starfsemi Bakkavör Group í Bretlandi og á meginlandi Evrópu – Exotic Farm Produce Group í Bretlandi og Heli Food Fresh í Tékklandi. Í október festi félagið  svo kaup á Welcome Food Ingredients í Bretlandi

Ágúst Guðmundsson, forstjóri, sagði í tilkynningu að:  "Við stöndum frammi fyrir mjög krefjandi aðstæðum á markaði þar sem hækkandi heimsmarkaðsverð á hráefni hefur veruleg áhrif á matvælaframleiðslu. Þetta kemur skýrt fram í afkomu og sölu félagsins á fyrstu níu mánuðum ársins, en þar að auki höfðu fleiri þættir umtalsverð áhrif á afkomuna á tímabilinu, svo sem afleitt veðurfar í Bretlandi í sumar, vöruinnköllun á fyrsta ársfjórðungi og hagræðing í hluta af framleiðslu okkar á tilbúnum réttum. Þrátt fyrir þetta jókst sala félagsins umfram markaðinn og við styrktum stöðu okkar enn frekar með kaupum á fimm fyrirtækjum á tímabilinu, í Bretlandi, Tékklandi, Frakklandi og Kína. Langtímahorfur Bakkavör Group eru góðar – eftirspurn eftir ferskum tilbúnum matvælum er sífellt að aukast út um allan heim og er félagið vel í stakk búið til að nýta þau tækifæri sem felast í þeirri þróun.“