Tap af rekstri Seðlabanka Íslands árið 2010 nam 13,5 milljörðum króna. Þetta kem fram í máli Láru V. Júlíusdóttur, formanns bankaráðs, á ársfundi bankans sem nú stendur yfir en Seðlabankinn verður 50 ára í ár.

Þar af varð 6,9 milljarða tap vegna gengismunar, sem skýrist af gjaldeyriseign bankans og styrkingu krónunnar, og 5,7 milljarða tap vegna rekstrartengdra liða, sem skýrist af vaxtamuni vegna innistæðubréfa og afskriftum á eignum Eignasafns Seðlabanka Íslands.

Í máli Láru kemur fram að rekstrarkostnaður bankans lækkaði um tæp 11% á milli ára, þrátt fyrir að umsvif bankans hafi aukist. Kostnaður sem hlutfall af efnahagsreikningi var 0,15% á síðasta ári og rúmlega helmingaðist. Eigið fé bankans lækkaði um 12 milljarða á árinu, vegna taps á rekstri, og er nú um 70 milljarðar króna.

„ Árið 2010 hefur verið viðburðaríkt og krefjandi fyrir Seðlabankann. Starfsemi bankans markast enn af því umróti sem fjármálahrunið hafði í för með sér.  Ýmislegt hefur þó áunnist t.d. varðandi stöðugleika.  Þannig styrktist gengi krónunnar verulega á síðasta ári og undir lok ársins náðist verðbólgumarkmið bankans. Ýmis verkefni bíða þó úrlausnar og nokkuð er í land að starfsemi bankans verði sú sem ætla má að hún verði við eðlilegar aðstæður,“ sagði Lára í ræðu sinni.