Sláturfélag Suðurlands (SS) flutti afgreiðslu sína frá Fosshálsi í Reykjavík á Hvolsvöll nýlega.

Verkefni deildarinnar felast í að taka til pantanir frá viðskiptavinum, pakka þeim, merkja og gera klárt í flutning.

Þetta kemur fram á vef Bændablaðsins .

Þar kemur fram að verktaki á vegum SS flytur svo vörurnar til Flytjanda í Reykjavík, sem annast dreifingu til viðskiptavina um allt land. Deildin hefur aðstöðu í 450 m2 nýbyggingu, auk hluta af eldra húsnæði sem tekið var í gegn og endurbætt.

Þá kemur fram í frétt Bændablaðsins að 14 ný störf verða til á Hvolsvelli með flutningi deildarinnar og verður því heildarfjöldi starfsmanna SS á Hvolsvelli 160-170 manns eftir breytinguna.

„Flutningur deildarinnar er stór áfangi í sögu og framtíð Sláturfélagsins, sem skila mun mikilli hagræðingu og störfum heim í hérað,“ sagði Guðmundur Svavarsson framleiðslustjóri SS á Hvolsvelli í samtali við Bændablaðið.