Fimmtán starfsmenn Straums fjárfestingarbanka áttu 33,3% hlut í fyrirtækinu um síðustu áramót. Þar af á Jakob Ásmundsson, forstjóri Straums, 9,5%. Fram kemur í Morgunblaðinu í dag að í lok árs 2012 hafi eignahlutur Jakobs verið metinn á um 125 milljónir króna. Þar var miðað við að bókfært eigið fé Straums hafi numið 1,3 milljörðum króna. Telja megi líklegt að hluturinn sé verðmeiri nú.

Í Morgunblaðinu segir að ALMC veitti starfsmönnum bankans seljendalán fyrir kaupunum sem nemi um 80%  af kaupverðinu. Lánin hafa verið veitt gegn veði í eignarhlut starfsmanna í bankanum.

ALMC, móðurfélag Straums, á 66,7% hlut í fjárfestingarbankanum. Fram til loka árs 2012 var hann eini hluthafi bankans.

Morgunblaðið segir að á meðal starfsmanna Straums sem eigi hlut í bankanum eru Haraldur I. Þórðarson, framkvæmdastjóri markaðsviðskipta (5%), Birna Hlín Káradóttir, forstöðumaður lögfræðisviðs (2,25%), og Páll Ragnar Jóhannesson, framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgafar (2%). Aðrir starfsmenn eiga minni hluti. Þá segir blaðið að Halla Sigrún Hjartardóttir, sem lét af störfum sem framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar sl. haust, átti 4% hlut í bankanum. Hún hefur selt hann, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins.