Alls voru 1.853 erlendir ríkisborgarar á atvinnuleysisskrá í lok ágústmánaðar sem er fjölgun um 18 frá júlímánuði. Þetta kemur fram í skýrslu Vinnumálastofnunar um stöðuna á vinnumarkaði í ágúst sem út kom fyrr í vikunni.

Samkvæmt skýrslunni voru mun fleiri karlar en konur í hópi atvinnulausra erlendra ríkisborgara, 1.040 á móti 813, en bilið hefur þó þrengst mikið síðan í júlí, þ.e. körlum fækkað og konum fjölgað. Þá búa flestir  á höfuðborgarsvæðinu, 1.378 og flestir hafa starfað við mannvirkjagerð.

Að meðaltali voru 11.294 á atvinnuleysisskrá í ágúst og eru útlendingar því 16% atvinnulausra.