Afkoma Landsbankans var jákvæð um 16,8 milljarða króna eftir skatta á fyrstu níu mánuðum ársins 2017 samanborið við 16,4 milljarða króna hagnað á sama tímabili árið 2016. Arðsemi eigin fjár á tímabilinu var 9,4% á ársgrundvelli samanborið við 8,5% á sama tímabili 2016. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Hreinar vaxtatekjur voru 27,1 milljarður króna og hækkuðu um 3,3% á milli tímabila. Hreinar þjónustutekjur námu 6,6 milljörðum króna og hækkuðu um 11,5% frá sama tímabili árið áður. Jákvæðar virðisbreytingar námu 2,1 milljarði króna á tímabilinu sem er 53% lægri fjárhæð en á sama tímabili í fyrra.

Aðrar rekstrartekjur námu 5,9 milljörðum króna samanborið við 5,2 milljarða króna á sama tímabili árið áður, sem er 15% hækkun. Skýrist hækkunin aðallega af jákvæðum gangvirðisbreytingum óskráðra hlutabréfa. Vanskilahlutfall hélt áfram að lækka og var 1,0% á fyrstu níu mánuðum ársins samanborið við 1,8% á sama tímabili 2016. Vaxtamunur eigna og skulda nam 2,5% á fyrstu níu mánuðum ársins 2017 en var 2,3% á sama tímabili árið áður.

Rekstrarkostnaður bankans nam 17,7 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2017, samanborið við 17,6 milljarða króna á sama tímabili árið 2016, sem er tæplega 1% hækkun. Þar af var launakostnaður 10,3 milljarðar króna samanborið við 10,4 milljarða króna á sama tímabili árið 2016, sem er lækkun um 1%. Annar rekstrarkostnaður hækkaði um 2,9% frá sama tímabili árið 2016 og var 7,4 milljarðar króna. Skýrist hækkunin aðallega af hærri framlögum til Fjármálaeftirlitsins og Umboðsmanns skuldara.

Kostnaðarhlutfall fyrstu níu mánaða ársins var 44,7% sem er lækkun um 3 prósentustig frá sama tímabili árið áður. Lækkunin skýrist einkum af jákvæðri þróun á mörkuðum. Útlán jukust um 6,2% frá áramótum, eða rúma 52 milljarða króna. Útlánaaukning ársins er bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Vanskilahlutfall heldur áfram að lækka og er nú 1%. Innlán hjá Landsbankanum jukust um 8,3% á milli tímabila. Þar af jukust innlán einstaklinga um 28 milljarða króna og er það til marks um bætta stöðu heimilanna.

Eigið fé Landsbankans var 243,1 milljarður króna 30. september sl. og eiginfjárhlutfallið var 26,8%. Landsbankinn hefur á þessu ári greitt 24,8 milljarða króna í arð.