Samkvæmt upplýsingum frá Pálma Kristinssyni, framkvæmdastjóra Smáralindar, er líklegt að heildarsalan á Þorláksmessu hafi aukist um 8-11%. Pálmi spáði því fyrir jólin að salan á Þorláksmessu myndi fara yfir 3 milljarða og reyndist hann vera nokkuð sannspár og má ætla að hún hafi verið nálægt 3,3 milljörðum.

Pálmi áætlar að salan í Smáralindinni einni saman á Þorláksmessu hafi numið 300 miljónum króna. Hann telur það vera um 18-20% söluaukningu frá því í fyrra. Þrátt fyrir söluaukningu telur Pálmi að gestafjöldinn í Smáralindinni í desember hafi dregist saman um 5% frá því í fyrra og því virðist sem fólk sé að fækka ferðunum en versli meira í einu.

Að sögn Geir Jóns Þórissonar, yfirlögregluþjóns Lögreglunnar í Reykjavík var fjölmennið í miðborginni um Þorláksmessu mjög svipað og í fyrra. Geir Jóns segir að sá fjöldi sem sækir miðborgina á Þorláksmessu breytist ekki mikið á milli ára en í ár var eitthvað minna af skipulagðri dagskrá vegna slæmrar veðurspá en allt gekk vel fyrir sig og ekkert kom upp á sem orð er á gerandi.

Samtök verslunar og þjónustu tóku upp á þeim nýja sið í ár að tilnefna jólagjöf ársins og varð ávaxta- og grænmetispressa fyrir valinu. Samtökin spáðu því að meðal Íslendingur myndi eyða um 30 þúsund krónum í jólagjafir í ár. Til samanburðar nefnir SVÞ að Bretar myndu eyða rúmlega 53 þúsundum króna í jólagjafir að meðaltali.