*

föstudagur, 7. ágúst 2020
Innlent 15. mars 2020 15:05

18 flugferðum um Leifsstöð aflýst í dag

Wizz air fellir einnig niður Póllandsferðir á morgun. Icelandair íhugar sérferð með Íslendinga heim frá Alicante.

Júlíus Þór Halldórsson
Rólegra verður á Flugstöð Leifs Eiríkssonar en til stóð næstu daga, og eflaust lengur, vegna aflýsinga flugferða.
Aðsend mynd

Átta flugum sem lenda áttu á Keflavíkurflugvelli í dag hefur verið aflýst, og tíu brottförum, en alls voru 48 komur og 49 brottfarir fyrirhugaðar. Þetta kemur fram á flugáætlunarvef Isavia.

Leiða má að því líkum að velflestar ef ekki allar aflýsingarnar tengist kórónufaraldrinum sem nú geisar yfir, en yfirvöld víðsvegar um heim hafa sett á mis-yfirgripsmikil farbönn síðustu daga.

Komuflugin sem um ræðir eru frá Minneapolis í Bandaríkjunum, Lundúnum, París, Helsinki, Zurich, Osló og Stokkhólmi. Brottfarirnar eru frá öllum sömu borgum nema Minneapolis, að viðbættri Kaupmannahöfn, Denver og Orlando.

Þá hefur öllum flugum Wizz air til og frá landinu á morgun verið aflýst, en til stóð að ungverska lággjaldaflugfélagið flygi hingað hingað frá fjórum pólskum borgum: Kraká, Wroclaw og Katowice, auk höfuðborgarinnar Varsjár. Flugum frá Keflavíkurflugvelli til allra fjögurra borganna hefur að sama skapi verið aflýst.

Icelandair íhugar nú að bjóða Íslendingum staðsettum á Spáni upp á flug heim frá Alicante annað kvöld ef nægur áhugi er fyrir hendi. Flugfélagið hefur beðið áhugasama um að tjá þann áhuga með skráningu, en engin skuldbinding felst í henni, aðeins yfirlýsing um áhuga. Verði af flugferðinni verður verðið fast, 80 þúsund krónur á farþega.