Upplýsingafyrirtækið 1800 tók í dag yfir leitargrunn Gulu línunnar, upplýsingaþjónustu um vörur og þjónustu fyrirtækja, sem hefur verið starfrækt frá 1986. Samhliða því hefur númerið 1800 verið opnað og þar er hægt að fá upplýsingar sem byggjast á 7.000 skráðum fyrirtækjum.

1800 ehf. er félag sem var stofnað til að keppa við 118 með því að veita neytendum upplýsingar um símanúmer einstaklinga og fyrirtækja. Andri Árnason, framkvæmdastjóri 1800 ehf. segir að með því að taka yfir gagnagrunn Gulu línunnar geti fyrirtækið veitt öfluga þjónustu þegar kemur að upplýsingum um fyrirtæki, vörur þeirra og þjónustu.

„Gula línan hefur alltaf haldið uppi mjög öflugum gagnagrunni og með þessu erum við að taka fyrstu skrefin í að dýpka þjónustu 1800,“ segir Andri og bætir við að 1800 geti því miður ekki veitt upplýsingar um símanúmer einstaklinga fyrr en einokun 118 verði endanlega aflétt, en það gerist með nýjum reglum sem nú er verið að innleiða.

Full samkeppni í sjónmáli

Eins og VB.is greindi frá í byrjun sumars hefur Póst- og fjarskiptastofnun tekið upp nýjar reglur um miðlun símaskrárupplýsinga. Í reglunum felst að alþjónustukvöð Já 118 til að gefa út rafræna og prentaða símaskrá er aflétt í því skyni að auka samkeppni milli fyrirtækja sem starfrækja símaskrárþjónustu. Þá hefur símanúmerið 118 verið afturkallað með hæfilegum aðlögunartíma en þjónusta sem veitt hefur verið í því númeri verður veitt í 1818 frá og með næsta ári.

Nýju reglurnar tóku gildi 1. júlí en fjarskiptafyrirtækin höfðu tvær vikur til verða við beiðni fyrirtækja sem starfrækja símaskrárþjónustu um að fá afhendar upplýsingar um símanúmer. Andri segir að nú sé beðið eftir því að fá gögnin til að geta hafið fulla samkeppni við 118.