Samtals hafa skráð félög í Kauphöllinni greitt um 20 milljarða íslenskra króna til hluthafa sinna í formi arðgreiðslna og endurkaupa á eigin bréfum þar sem af er árinu. Það samsvarar um 3,7% af um 550 milljarða króna markaðsvirði félaganna. Af mestum hluta eru þetta arðgreiðslur en skráð íslensk félög greiddu samtals 12 milljarða króna í arð til hluthafa sinna að afloknu síðasta rekstrarári.

Þegar kaup félaganna á eigin bréfum eru tekin saman sést að eigin bréf hafa verið keypt fyrir tæpan milljarð samkvæmt endurkaupaáætlun TM, VÍS og Vodafone. Þar fyrir utan hefur N1 lækkað hlutafé fyrir 3,86 milljarða á árinu og Össur hefur keypt eigin bréf fyrir 3,65 milljarða króna.

Ágæt afkoma, fá vaxtartækifæri og góð fjárhagsstaða fyrirtækja í Kauphöllinni er það sem helst skýrir háar arðgreiðslur og endurkaup á bréfum samkvæmt nýlegrigreiningu Arion banka um félögin á Kauphöllinni. Allur gangur er á því hvernig félögin kjósa að greiða aftur til hluthafa.

Algengasta leiðin er í formi arðgreiðslna en ásamt hefðbundnum arðgreiðslum kaus olíufélagið N1 í ár að að lækka hlutafé í félaginu í stað þess að kaupa eigin bréf.

Nánar er fjallað um málið í Kauphallarblaðinu sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .