Mannaflaþörf við byggingu álvers Fjarðaáls 2004-2007 verður vel á annað þúsund manns þegar mest verður og yfir 2000 manns ef taldir eru með starfsmenn í álverinu sjálfu í byrjun árs 2007. Bygging álversins hefst ekki fyrr en á árinu 2005. Á fyrsta ársfjórðungi 2005 verða ráðnir til starfa um 300 manns, yfir 1200 manns verða komnir til starfa í árslok 2005, og hæst
fer fjöldinn í nálægt 1600 til 1700 manns seinni part árs 2006 og í byrjun árs 2007. Áætlað er að verkinu ljúki í árslok 2007 eða byrjun árs 2008.

Tölur fyrir árin 2006 og 2007 eru þó ónákvæmar og verða birtar nýjar áætlanir á vormánuðum. Þessar upplýsingar eru teknar úr nýrri skýrslu Vinnumálastofnunar um mannaflsþörf vegna framkvæmdanna fyrir austan.

Þar kemur einnig fram að í fyrstu verður einkum eftirspurn eftir bílstjórum og vélamönnum, en síðan verkamönnum allt fram yfir mitt ár 2006. Þá eykst eftirspurn eftir iðnmenntuðu fólki, fyrst stálvirkjasmiðum/ járnsmiðum, svo smiðum og loks vélvirkjum og rafvirkjum í lok árs 2006 og byrjun árs 2007.

400 Íslendingar við störf

Í áætlunum Bechtel er gert ráð fyrir að allt að 400 störf við byggingu álversins verði mönnuð Íslendingum á hverju ári næstu 3 árin, er þar aðeins að hluta um sama mannskap að ræða allan tímann og ætti heildarfjöldi Íslendinga sem kemur að bygginu álversins því að verða nokkru
meiri. Erlendir starfsmenn við bygginu álversins verða því samkvæmt þessari áætlun allt að 1300 manns seinni part ársins 2006 og í byrjun árs 2007. Óljóst er á hvaða forsendum þessar áætlanir eru settar fram, og raunar verður að teljast ólíklegt að svona mikill fjöldi Íslendinga
fáist til starfa við álversbygginguna, eins og vikið er að síðar í skýrslunni.

"Ekki liggur fyrir nákvæm áætlun hjá Bechtel um hvernig staðið verður að ráðningum í þessi störf. Hvað erlent vinnuafl varðar hefur fyrirtækið töluvert öflugt samskiptanet erlendis til að útvega erlent vinnuafl. Af hálfu Vinnumálstofnunar hefur verið unnið að því að koma á tengslum milli Bechtel og opinberra vinnumiðlana á evrópska efnahagssvæðinu í gegnum
vinnumiðlunarkerfi EURES, sem nær bæði til gömlu vrópusambandsríkjanna sem og þeirra 10 ríkja sem gengu í sambandið 1. maí sl.

Forsvarsmenn Bechtel hafa hug á að ráða sem flesta erlenda starfsmenn frá sama ríki eða fáum ríkjum til að auka hagræði við flutninga fólks til landsins, og er horft m.a. til Póllands í því sambandi, auk ríkja innan hins gamla Evrópusambands," segir í skýrslu Vinnumálastofnunar.

Seinni part ársins 2006 verður byrjað að ráða fólk til starfa í álverinu, sem verða um 500 þegar álverið verður komið í fullan gang í lok árs 2007.