101 Hótel skilaði 160,4 milljóna króna hagnaði í fyrra sem er mikill viðsnúningur frá rúmlega 14 milljóna króna tapi árið 2009. Skuldastaða félagsins breyttist einnig til hins betra í fyrra þegar leigusali þess gaf eftir rúmlega 200 milljóna króna skuld. Við það lækkuðu skuldir félagsins um 85%. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi þess.

101 Hótel skilaði inn ársreikningi fyrir árið 2010 12. júlí síðastliðinn. Félagið er í 100% eigu Ingibjargar Pálmadóttur og rekur hótel við Hverfisgötu 8-10. Í reikningnum kemur fram að hagnaður félagsins hafi verið 160,4 milljónir króna í fyrra.

Mesta breytingin á efnahagsreikningi 101 Hótels er tilkomin vegna þess að leigusali félagsins gaf eftir skuldir uppá 214 milljónir króna gegn því að hótelið endurnýjaði 15 ára leigusamning við hann. Í ársreikningnum kemur fram að heildarskuldbinding við leigusala á leigutíma sé 550 milljónir króna. Samkvæmt gjaldendaskrá Þjóðskrár eru eigendur fasteignarinnar, og þar af leiðandi leigusalar hótelsins, hjónin Ingibjörg Pálmadóttir og Jón Ásgeir Jóhannesson. Fasteignin var færð yfir til þeirra frá fyrri eiganda, IP Studium ehf., í byrjun árs 2010. Eigandi IP Studium er Ingibjörg Pálmadóttir.

Á eignalista, sem Jón Ásgeir skilaði inn til breskra dómstóla vegna málareksturs slitastjórnar Glitnis á hendur honum í fyrra, taldi hann meðal annars upp fasteignina á Hverfisgötu. Þar sagði hann áætlað virði hennar vera um 590 milljónir króna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Meðal annars efnis í blaði morgundagsins er:

  • Titringur vegna dóms í kröfumáli
  • Festa í eignarhaldi Loðnuvinnslunnar
  • Sigurður Atli Jónsson, nýr forstjóri MP banka, í viðtali
  • Tap kröfuhafa yfir 7000 milljarðar
  • Frakkar vilja Alfesca
  • Sport & peningar: Fögn Stjörnunnar í auglýsingar
  • Lítið skref stigið í Bandaríkjunum