*

sunnudagur, 13. júní 2021
Erlent 11. ágúst 2014 15:38

2,2 milljónir hafa sótt Expendables 3

Kvikmyndin Expendables 3 verður frumsýnd í kvikmyndahúsum á föstudag en henni hefur verið lekið á netið.

Ritstjórn
european pressphoto agency

Að minnsta kosti 2,2 milljónir manna hafa nú þegar séð stórmyndina The Expendables 3, þrátt fyrir að kvikmyndin verði ekki frumsýnd fyrr en á föstudag. Fjallað er um málið á vef Wall Street Journal.

Fyrir tveimur vikum lak afrit af myndinni á netið. Myndin hefur að geyma stórleikara á borð við Sylvester Stallone, Mel Gibson og Harrison Ford. Um er að ræða umfangsmesta kvikmyndaleka Hollywood síðan kvikmyndin X-men Origins: Wolverine lak á netið árið 2009.

Þrátt fyrir að mjög algengt sé að kvikmyndir rati á netið þá er mjög sjaldgæft að það gerist áður en þær eru frumsýndar í kvikmyndahúsum. Eina leiðin til að það gerist er að einhver sem vinnur við framleiðslu myndarinnar leki henni. 

Hagnaður af fyrstu tveimur Expendables myndunum nam 103 og 85 milljónum Bandaríkjadala. Talið er að lekinn gefi haft gífurleg áhrif á tekjur Expendables 3 en framleiðslukostnaður við myndina nam nánast 100 milljónum dala.

Stikkorð: Hollywood Niðurhal