Hreyfing er að komast aftur á hugmyndir um að byggja hótel í Laugardal, nánar tiltekið þar sem stúkubygging Laugardalslaugarinnar stendur núna. Björn Leifsson í World Class hefur áður varpað fram slíkum hugmyndum og hefur átt fund með skipulagsstjóra Reykjavíkur um málið auk þess sem hann hefur kynnt hugmyndir sínar fyrir borgarstjóra og formanni íþrótta og tómstundaráðs Reykjavíkur. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.

Í samtali við Viðskiptablaðið sagðist Björn vera bjartsýnn á að af málinu verði og staðfesti hann að viðræður væru í gangi. Hefur verið farið fram á að World Class skili ítarlegri greinargerð til skipulagsyfirvalda en fyrirtækið hefur nú unnið að útfærslu hugmyndarinnar í tvö ár. World Class rekur nú íþrótta- og heilsurækt við laugina.

Eftir því sem komist verður næst er rætt um það að ræða að byggja 220 herbergja hótel ef leyfi fæst til að rífa núverandi stúkubyggingu. Er rætt um að hótelið verði einni hæð hærra en núverandi stúkubygging. Um leið er rætt um áframhaldandi byggingar í kringum Laugardalslaugina og framkvæmdir við laugagarðinn. Heildarkostnaður við framkvæmdirnar gæti numið sjö milljörðum króna en formleg kostnaðaráætlun liggur ekki fyrir. Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins kæmi bygging við hliðina þar sem væri sundaðstaða fyrir börn. Í kjallara yrði sundaðstaða fyrir eldra fólk. Þá er gert ráð fyrir rannsóknarsetri fyrir Íþróttakennaraskólann á Laugarvatni og aðstaða fyrir lækna. Hringnum yrði síðan lokað með fundarsölum og gert er ráð fyrir að endurbyggja laugargarðinn.

Laugardalslaugin var byggð 1968 og var Einar Sveinsson, húsameistari Reykjavíkur, hönnuður laugarinnar.