Útgáfa af grænna skuldabréfa og lána 257,7 milljörðum dollara á heimsvísu á síðasta ári og jókst um 51% á milli ára samkvæmt gögnum frá Climate Bonds Initiative . Samtals voru útgáfurnar 1.788 talsins frá 496 útgefendum.

Samkvæmt skilgreiningu Climate Bonds Initiative teljast skuldabréf vera græn þegar a.m.k. 95% fjármagnsins er nýtt til kaupa eða framkvæmda á grænum eignum eða til verkefna sem falla undir flokkunarkerfi Climate Bonds Initiative.

Stærstur hluti útgáfunnar átti sér á mörkuðum í Evrópu eða um 45% þar sem út gáfan jókst um 74% milli ára en þar á eftir kom Austur-Asía með 25% og Norður Ameríka með 23%. Þegar útgáfan er skoðuð eftir löndum voru Bandaríkin, Kína og Frakkland umsvifamest en löndin þrjú stóðu undir samtals um 44% af heildarútgáfu ársins. Þar af voru 51,3 milljarðar á mörkuðum í Bandaríkjunum, 31,3 milljarðar í Kína og 30,1 milljarður í Frakklandi.

Þess má geta að uppsöfnuð útgáfa grænna skuldabréfa í Evrópu nam í lok síðasta árs um 307,7 milljörðum dollara en þar af nemur útgáfa hér á landi um 348 milljónum dollara eða um 44,1 milljarði króna samkvæmt Climate Bonds Initiative.

Stærsti einstaki útgefandinn á síðasta ári var bandaríska húsnæðislánastofnunin Fannie Mae með 22,9 milljarða en þar á eftir kom þýski þróunarbankinn með 9 milljarða og hollenska ríkið með 6,7 milljarða.

Það þarf ekki að koma mikið á óvart að orkugeirinn hafi verið umsvifamestur í útgáfu grænna skuldabréfa með 31% en þar á eftir kom byggingargeirinn með 30%, samgöngur og flutningar með 20% og vatnsiðnaður með 9%.