Afkoma ríkissjóðs verður neikvæð um 264 milljarða á næsta ári samkvæmt nýlögðu fjárlagafrumvarpi sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur lagt fram. Jafnframt leggur ráðherrann fram frumvarp sem heimilar undanþágu frá skilyrðum um heildarjöfnuð og skuldahlutföll hins opinbera árin 2023 til 2025, svo ekki þurfi að taka 6% halla af VLF niður í 2,5% á einu vetfangi.

Samkvæmt fjármálaáætlun verður afkoman neikvæð um 900 milljarða út tímabil nýrrar fjármálaáætlunar til ársins 2025, þar af um 600 milljarða á næsta og þarnæsta ári. Þar með munu skuldir hins opinbera sem hlutfall af vergri landsframleiðslu aukast úr 28% í 48% árið 2021.

Ætla að stöðva skuldasöfnun árið 2025

Stöðva á skuldasöfnunina á lokaári fjármálaáætlunarinnar, árið 2025, svo skuldastaðan verði að hámarki 59% af VLF, een til að ná því markmiði er gert ráð fyrir að afkoma ríkissjóðs batni um 37,5 milljarða króna árlega árin 2023 til 2025 með svokölluðum afkomubætandi ráðstöfunum sem nemi tæplega 3% af veltu hins opinbera eða 1% af VLF. Annars fari hlutfallið í 65%.

Afkoma ríkissjóðs á næsta ári er sögð versna um 192 milljarða vegna beinna efnahagslegra áhrifa faraldursins og viðbragða við honum á næsta ári. Þyngst vegur þar samdráttur skatttekna um 89 milljarða króna vegna minni umsvifa.

Skatttekjur ríkissjóðs eru sögð verða 52 milljörðum krónum lægri á næsta ári vegna skattbreytinga og lækkana árið 2017, en án þeirra. Þar af eru aðgerðir sem gripið var til í ár, endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna vinnu, flýting á lækkun bankaskatts og niðurfelling gistináttarskatts sögð kosta ríkissjóð 17 milljarða.

Gera ekki kröfur um aðhald hjá ríkisstofnunum

Í tilkynningu ríkisstjórnarinnar er sagt að áfram verði ríkisfjármálunum beitt af fullum þunga til að verja störf og skapa viðspyrnu eins og það er kallað, og því verður til að mynda ekki gerðar auknar aðhaldskröfur til málefnasviða, og þá væntanlega ýmissa ríkisstofnana þar undir, sem og öll tilfærslukerfi verða varin eins og það er kallað.

Auk þess er gert ráð fyrir að atvinnuleysisbætur hækki um 23 milljarða króna á næsta ári, og nemi um 100 milljörðum króna í heildina á árinu.

Útgjöld vegna ýmissa mótvægisaðgerða eru áætluð um 35 milljarðar króna, þar með talið ýmis konar uppbygging og fjárfesting í innviði, auk aukinna útgjalda til háskóla- og framhaldsskólastigsins til að bregðast við atvinnuleysi og auknar endurgreiðslur vegna rannsókna- og þróunar. Loks er gert ráð fyrir að arðgreiðslur til ríkissins lækki um 27 milljarða króna.

111 milljarðar í fjárfestingaverkefni

Heilbrigðiskerfið fær 15 milljarða til viðbótar á næsta ári samkvæmt fjárlagafrumvarpinu, utan launa- og verðlagsbreytinga, en þar af nema framlög til byggingar nýs Landspítala tæplega 7 milljörðum króna.

Alls er gert ráð fyrir tæplega 12 milljörðum króna til framkvæmdanna við nýja Landspítalann á næsta ári. Í heildina nemur umfang fjárfestingar- og uppbyggingarátaks stjórnvalda á árinu 2021 um 27,2 milljörðum króna, en í heildina nema framlög til fjárfestinga 111 milljörðum króna á árinu.

Umhverfismál fá 24 milljarða

Mennta- og menningamál fá 6 milljarða til viðbótar á árinu, þar af koma 2 milljarðar vegna áætlaðrar fjölgunar nemenda vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins, sem og vegna nýsamþykktra laga um Menntasjóð námsmanna. Auk þess verður 1 milljarður settur í háskólastigið til að ná meðaltali OECD.

Nýsköpunarmál fá 25 milljarða á næsta ári, sem er 5 milljarða hækkun miðað við útgjöld þessa árs, en þar af er gert ráð fyrir að fjárstuðningur til fyrirtækja vegna rannsókna og þróunarstarfs nemi 7 milljörðum á árinu, vegna þreföldunar ívilnana frá árinu 2017.

Upplýsingatækniverkefni eins og Stafrænt Ísland sem á að gera opinbera þjónustu starfræna fá svo 2,3 milljarða króna. Loks fá umhverfismál 24 milljarða, sem er 3,4 milljarða króna aukning milli ára. Þar af nemur þyngst aukin framlög til ofanflóðasjóðs.