Rekstrartekjur Austurbakka h.f. voru á árinu 2004 samtals 2185,5 milljónir. Tap varð af rekstri félagsins að upphæð kr. 27,4 milljónir. Rekstrartap án afskrifta er 31,3 milljónir, en var 94,7 milljónir króna hagnaður á sama tímabili í fyrra. Afskriftir eru kr. 28,8 milljónir. Fjármagnstekjur voru 30,2 milljónir samanborið við gjöld kr. 7,8 milljónir eftir 12 mánuði 2003.

Veltufé frá rekstri eftir tólf mánuði 2004 er neikvætt um 37,8 milljónir og eiginfjárhlutfall er 23,06%, en var 23,94% eftir tólf mánuði 2003. Veltufjárhlutfall er 1,14 á móti 1,26 eftir tólf mánuði 2003. Við uppgjörið er beitt sömu reikningsskilaaðferðum og árið áður. Reikningsskilin eru ekki verðleiðrétt.

"Árið 2004 einkenndist af taprekstri félagsins og þeim aðgerðum sem stjórn félagsins og framkvæmdastjórn fóru í um mitt ár 2004 til að rétta reksturinn við. Árangur fór að koma í ljós á seinni hluta ársins og gerir stjórnin ráð fyrir að sú þróun haldi áfram á árinu 2005. Aðalfundur félagsins verður haldinn 8. apríl n.k. Í ljósi aðstæðna og taprekstrar á árinu verður gerð tillaga um að ekki verði greiddur arður á þessu ári," segir í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar.