Alls eru 184 listar í framboði til 74 sveitarstjórna í kosningunum 31. maí næstkomandi. Á listunum eiga sæti 2.916 einstaklingar, 1536 karlar og 1380 konur. Karlar eru 53% frambjóðenda og konur 47%. Þessi hlutföll eru hin sömu og voru í síðustu sveitarstjórnarkosningum árið 2010.

Listakosningar verða í 53 sveitarfélögum en þar hafa verið lagðir fram fleiri en einn listi og mun því hlutfallskosning fara þar fram í þeim. Í þremur sveitarfélögum kom aðeins fram einn listi og er því sjálfkjörið í þær sveitarstjórnir.

Óbundnar kosningar verða í 18 sveitarfélögum þar sem enginn listi kom fram. Í óbundnum kosningum eru allir kjósendur í sveitarfélaginu í kjöri, nema þeir sem löglega eru undanþegnir skyldu til að taka kjöri og hafa fyrir fram skorast undan því.