Hlutafé Völku var aukið um 300 milljónir í desember af núverandi hluthöfum félagsins. „Markmið hlutafjáraukningarinnar er að gera okkur kleift að halda áfram að sækja fram,“ segir Helgi Hjálmarsson, framkvæmdastjóri og stofnandi Völku.

Helgi segir rekstrartekjur félagsins hafa dregist saman um í kringum 10% á síðasta ári, fyrst og fremst vegna heimsfaraldursins. Félagið velti 3,2 milljörðum króna árið 2019. Veltan verði líklega álíka og 2019 á þessu ári. Á næstu árum sé hins vegar stefnt á töluverðan vöxt hjá félaginu.

Valka vinnur meðal annars að nýrri fiskvinnslu fyrir laxeldisrisann Salmar í Noregi þar sem Helgi segir að verði töluvert af nýjungum. Það stefnir í að Noregur verði stærsta markaðssvæði Völku.

„Við sjáum mjög mikil tækifæri þar,“ segir Helgi. Þá hefur félagið einnig hafið sölu nýrrar gerðar skurðarvéla fyrir laxeldisiðnaðinn.

Meðal stærstu verkefna Völku á síðasta ári var ný fiskvinnsla Samherja á Dalvík og fiskvinnsla í Murmansk í Rússlandi.

Stærsti hluthafi Völku er félag í eigu Samherja með um fimmtungshlut og þá á Helgi um 18% hlut.