*

miðvikudagur, 26. júní 2019
Erlent 19. desember 2017 18:13

300.000 dalir fyrir einn hlut

Hlutir í félagi Warren Buffet, Berkshire Hathaway fóru yfir 300.000 dala markið í fyrsta skipti í gær.

Ritstjórn
Warren Buffet, fjárfestirinn góðkunni.

Verð bréfa í Berkshire Hathaway, félagi fjárfestisins Warren Buffet, fór yfir 300.000 dala markið í fyrsta skipti í gær. Andvirði þeirrar upphæðar í krónum á gengi dagsins er um 31,8 milljónir króna. Um er að ræða svokallaða A hluti en hægt er að fá tvær tegundir hluta í fyrirtækinu, A og B hluti.

Hlutirnir í Berkshire Hathaway hafa hækkað um 23% ár sem er nokkru meira en meðalávöxtun á S&P 500 vísitölunni. Hækkunin er talin merki um að fjárfestar treysti Buffet til þess að halda áfram að stækka fyrirtækið en það gæti einnig séð hag sinn vænkast nái nýtt skattafrumvarp Repúblikana fram að ganga.

Um þrjá ár eru síðan hlutir félagsins fóru yfir 200.000 dali. Fyrir það tók átta ár fyrir hlutina að hækka úr 100.000 dölum upp í 200.000 dali. Buffet hinn 87 ára gamli fjárfestir keypti hins vegar sína fyrstu hluti í fyrirtækinu árið 1962 á aðeins 7,5 dali.

Munurinn á A hlutum og B hlutum í Berkshire Hathaway er sá að hinum A hlutum hefur aldrei verið skipt upp. Með skipt upp er átt við að einum hlut sé skipt upp í marga smærri og verðgildi hlutarins minnkar þá í samræmi við það. Til dæmis ef hlut í fyrirtæki sem selst á 100 dali væri skipt í tvennt ætti hluthafinn sem upphaflega átti hlutinn nú tvo hluti en alla jafna myndu þeir þá seljast á 50 dali hvor að öðru óbreyttu. B hlutir voru hins vegar kynntir til sögunnar árið 1996 og fengust fyrir einn þrítugasta af verði A hluta, hverjum B hlut var svo aftur skipt upp í 50 nýja hluti árið 2010. Þeir fást nú fyrir tæplega 200 dali.

Buffett er þeirrar skoðunar að hátt verð hluta dragi að fjárfesta sem deili sömu fjárfestingarstefnu og hann, þ.e. leggi áherslu á langtímahagnað í stað skammtímaverðbreytinga. Þess vegna hefur hann tilkynnt að A hlutum verði aldrei skipt upp. Hann kynnti hins vegar B hlutina til sögunnar til þess að gefa minni fjárfestum færi á að kaupa bréf í félagi sínu.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is