Tap Icelandic Group hf. á fyrrihluta árs nam 311 milljónum króna samanborið við 326 milljóna króna hagnað árið áður. Starfsemin á fyrri hluta ársins hefur einkennst af vinnu í tengslum við samruna Icelandic Group hf. og Sjóvíkur hf. Einskiptiskostnaður samstæðunnar nam samtals 811 milljónum króna. Rekstur samstæðunnar í Bretlandi, meginlandi Evrópu og Asíu gekk í heild vel á tímabilinu segir í tilkynningu félagsins.

Afkoma í Bandaríkjunum var verulega undir áætlunum. Vörusala á fyrstu sex mánuðum jókst um 46% eða úr 31,7 milljörðum króna í 46,4 milljarða króna. Innri vöxtur var 7%. EBITDA janúar - júní var 649 milljónir króna en var 1.110 milljónir króna árið áður. EBITDA án einskiptiskostnaðar nam 1.461 milljón króna. Hagnaður janúar ? júní án einskiptiskostnaðar nam 268 milljónum króna.

"Frá því að formlega gengið var frá sameiningu Icelandic Group hf. og Sjóvíkur ehf., í lok maí sl., hefur staðið yfir vinna við sameiningu félaganna. Þar hefur hæst borið sameining fisksölufyrirtækjanna í Bandaríkjunum en jafnframt hefur verið unnið að stefnumótun samstæðunnar í heild. Auk þess hefur áfram verið unnið að samþættingu starfseminnar í Bretlandi og er gert ráð fyrir því að henni ljúki á næstu vikum," segir Þórólfur Árnason forstjóri Icelandic Group hf. um uppgjörið í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar.