Hagnaður Samkaupa á síðasta ári var rúmar 340 milljónir króna eftir skatta. Velta Samkaupa og dótturfélagsins Búrs var tæplega 22,7 milljarðar króna á árinu 2012. Það er tæplega 10% aukning frá fyrra ári, að því er segir í tilkynningu um uppgjörið. Aðalfundur félagsins var haldinn þann 20. mars síðastliðinn.

Samkaup reka 47 verslanir undir merkjum Nettó, Kaskó, Samkaup úrval og Samkaup strax. Verslanirnar eru á 34 stöðum á landinu. Starfsmenn voru 866 í fyrra í 502 stöðugildum.

Stærsti eigandi Samkaupa er Kaupfélag Suðurnesja ásamt dótturfélögum, sem samtals eiga 62,8% hlut. Kaupfélag Borgfirðinga og dótturfélag eiga 20,3%. Aðrir hluthafa eiga minna en 10% hlut hver en samtals voru hluthafar 181 talsins um áramót.

Fram kemur í tilkynningunni að á aðalfundi var Skúli Skúlason kosinn stjórnarformaður. Aðrir í stjórn eru Rögnvaldur Skíði Friðbjörnsson, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Margrét Katrín Erlingsdóttir og Þorvaldur Tómas Jónsson. Framkvæmdastjóri Samkaupa er Ómar Valdimarsson.