Sigmar Vilhjálmsson.
Sigmar Vilhjálmsson.
© Aðrir ljósmyndarar (VB MYND)
Nautafélagið, sem á og rekur Hamborgarafabrikkuna, hagnaðist um 34,7 milljónir króna í fyrra. Á grundvelli þeirrar afkomu ákvað stjórn félagsins að 30 milljónir króna yrðu greiddar í arð til hluthafa á árinu 2011. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins sem skilað var inn til ársreikningaskrár 23. maí síðastliðinn.

Eigendur Nautafélagsins eru þeir Sigmar Vilhjálmsson og Jóhannes Ásbjörnsson, oftast kallaðir Simmi og Jói, með samanlagt 74% hlut, og Skúli Gunnar Sigfússon, eigandi Subway á Íslandi, sem á 26%.

Eignir félagsins eru metnar á 85,9 milljónir króna en skuldir þess eru samkvæmt reikningnum 32,2 milljónir króna. Þar er þó að mestu um viðskiptaskuldir að ræða, eða 20,2 milljónir króna. Langtímaskuldir félagsins voru ekki nema 542 þúsund krónur um síðustu áramót. Eigið fé Nautafélagsins var því 53,7 milljónir króna og eiginfjárhlutfallið 62,5%.

Simmi og Jói voru valdir markaðsmenn ársins í fyrra.