Rúmlega 3,8 milljarða tap fellur á ríkissjóð vegna ofmats SpKef á kröfum á hendur 400 stærstu skuldara sparisjóðsins. Þetta eru 3,8 milljarðar af 19,2 milljarða króna kostnaði sem ríkissjóður þurfti að greiða Landsbankanum í júní vegna ofmats eigna sparisjóðsins. Þetta kemur fram í nefndarúrskurði sem Morgunblaðið fjallar um í dag.

Tæplega sex milljarða króna munur á kröfu Landsbankans og mati úrskurðanefndar um leiðréttingu á mati lánasafns þessara 400 stærstu skuldara. Landsbankinn krafðist rúmlega 9,5 milljarða króna vegna ofmats á kröfunum en úrskurðanefndin féllst á að gerð að leiðrétting sem nemi 3,8milljörðum.

Við samruna Landsbankans og SpKef var gerður fyrivari um endanlegt verðmæti eignasafns SpKef. Sameiginleg úrskurðanefnd tók afstöðu til umræddra krafna. Landsbankinn hefur þegar fært 30 milljarða króna kröfu á ríkissjóð til eignar en í Morgunblaðinu í dag er haft eftir Kristjáni Kristjánssyni, upplýsingafulltrúa bankans, að þessi upphæð verði nú endurskoðuð í ljósi nefndarúrskurðarins.

„Við mátum safnið fyrir rúmu ári og í framhaldi af úrskurðinum nú erum við að leggja sjálfstætt mat á það á nýjan leik. Við endurskoðun getur komið til greina að verðmæti safnins verði metið hærra, þar sem nákvæmari upplýsingar liggja fyrir […] ,“ segir Kristján í Morgunblaðinu í dag.