Verðlag hækkaði í Bandaríkjunum um 0,3% í mars frá fyrri mánuði. Verðbólga á ársgrundvelli nemur nú 4% en hún hefur verið á bilinu 4,0% til 4,3% síðan í nóvember. Þetta kemur fram í Vegvísi Landsbankans.

Meginástæður verðbólgunnar eru hærra matvæla- og olíuverð. Hækkandi verð á neysluvörum, lækkandi fasteignavirði og minna starfsöryggi er að draga úr einkaneyslu og gæti aukið til muna samdrátt í hagkerfinu.

Samkvæmt Bloomberg fréttaveitunni þykir nú líklegt að vextir verði lækkaðir í mánuðinum þar sem megin áhersla Seðlabankans er að auka hagvöxt.

En greinendur spá nú að hagvöxtur verði enginn fyrstu sex mánuði ársins. Næsta ákvörðun er 30. apríl og meðalspá greinenda gerir ráð fyrir 50 punkta lækkun í 1,75%.