Hrein eign heimila landsins lækkað úr tæpum 140% af vergri landsframleiðslu árið 2008 í tæp 100% í fyrra. Þetta er svipað hlutfall og árið 2002. Á sama tíma er eignarskattstofn 60% heimila jákvæður. Afgangurinn, 40% heimilanna, glímir við neikvæða eiginfjárstöðu. Þetta eru um 60 þúsund heimili og er tvöfalt meira en fyrir hrun.

Þetta kemur fram í Markaðspunktum greiningardeildar Arion banka í dag um eigna- og skuldastöðu heimilanna.

Alþingi
Alþingi
© Axel Jón Fjeldsted (VB MYND/AXEL JÓN)

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, gagnrýndi Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra á Alþingi í dag fyrir að gera lítið fyrir skuldsett heimili í landinu. Hann sagði 60% heimila landsins með neikvæða eiginfjárstöðu. Jóhanna sagði hann með úreldar tölur.

Þeir verst stöddu keyptu við topp fasteignabólunnar

Greiningardeildin segir í umfjöllun sinni um eignastöðuna ljóst að sumir þeirra sem keyptu fasteignir á árabilinu 2002 til 2008 hafi keypt þær á háu verði. Þeir sem nú séu verst staddir hafi keypt ýmist nálægt toppi fasteignabólunnar í kringum 2006 til 2008, skuldsett sig um of eða bæði.

Þá segir greiningardeildin að neikvæð eiginfjárstaða heimilanna hafi á árunum 2002 til 2008 verið að meðaltali 4-5 milljónir króna. Hún er 8 milljónir króna að meðaltali í dag.

Greiningardeildin bendir á að hag íslenskra heimila sé ærið misskipt. Í dag eigi um 60% heimila jákvæða eignarskattstofninn. Síðastliðinn áratug hafi skiptingin verið á þann veg að um 80% heimila voru í þeim flokki á sama tíma og 20% fjölskyldna voru með neikvæðan stofn.

Deildin veltir því upp að 20% hafi líkast til verið að verulegu leyti ungt fólk sem var að koma undir sig húsaskjóli. Fimmtungur þjóðarinnar alla jafnan verið á aldrinu 18-32 ára.