*

mánudagur, 18. janúar 2021
Innlent 31. júlí 2019 09:59

40% vilja selja í bönkunum

Rúmlega fimmtungur svarenda vill auka eignarhald ríkisins í bönkunum, en 37% vilja eignarhaldið óbreytt.

Ritstjórn
Óli Björn Kárason er formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis og þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Haraldur Guðjónsson

Eilítið stærri hópur eða nærri 40%, vill að ríkið selji alla eða hluta af eignum sínum í viðskiptabönkunum en þeir 36,8% sem vilja að ríkið haldi hlutunum óbreyttum segir í nýrri könnun Zenter rannsókna fyrir Fréttablaðið sem gerð var 24.-29. júlí síðastliðinn.

Loks er 23,4% sem vilja að ríkið auki eignarhlut sinn. Er þá tekið saman þeir 6,9% svarenda sem vilja að ríkið kaupi upp alla eignarhluti í bönkunum og þá 16,5% sem vilja að ríkið auki eignarhaldið.

Einungis 5,1% vilja að ríkið selji alla eignarhlutina í bönkunum, en 34,8% vilja að ríkið dragi úr eignarhaldi sínu. Miðast þessar niðurstöður við þá sem tóku afstöðu, en heil 27% sögðust ekki vita hvernig ætti að haga málum. Var hæst hlutfall þeirra í yngsta aldurshópnum, en 58% 18 til 24 ára sögðust ekki vita það. Jafnframt var hlutfall þeirra hátt meðal kvenna, eða 44%.

Í dag á ríkið hins vegar 100% í Íslandsbanka og 98,2% í Landsbankanum, en samkvæmt stefnumörkun stjórnvalda er horft til þess að selja allan Íslandsbanka og meirihlutanum í Landsbankanum en halda 34-40% í Landsbankanum eftir.

Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar sem situr á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn viðurkennir að hann hefði viljað sjá meiri stuðning við að ríkið dragi úr eignarhaldinu þó hann telji niðurstöðurnar ekki koma á óvart.

„Það er þá bara verk að vinna og menn þurfa þá að fara í þá umræðu. Ég hins vegar skil auðvitað fólk sem hefur efasemdir um að það sé rétt að gera það,“ segir Óli Björn sem segir áhugavert að sjá svörin ef fólk væri spurt hvort ríkið ætti að taka fjárhagslega áhættu af rekstri fjármálafyrirtækja.

„Þá gæti fólk velt því fyrir sér hvort ríkið ætti að vera að binda fleiri hundruð milljarða í fjármálafyrirtækjum sem gætu nýst í öðrum innviðum.“