Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, sagði á vaxtaákvörðunarfundi í morgun að Seðlabankinn teldi hættu á að 400 milljarðar króna leiti út verði gjaldeyrishöftunum aflétt. "Það er ekki þar með sagt að þetta fari út í einni bunu þegar höftum er lyft," sagði Már. Þetta væri spurning hvernig þessi skref yrðu stigin.

Hann sagði að hægt væri að tappa af þessum stabba krónueigna í eigu erlendra aðila í gegnum skiptiútboð. Það myndi minnka þrýstinginn. Hinn möguleikinn væri að þessum krónum yrði hleypt út allra seinast um leið og reglurnar eru rýmkaðar. „Það má ekki gefa sér að þetta spýtist út þegar höftum er lyft. Við munum ekki láta það gerast," sagði Már.

Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri, sagði að með Avens viðskiptunum hefði nokkur stór hluti krónueigna erlendis farið í eigu innlendra aðila. „Það felur í sér að það væri til dæmis sennilega hægt fljótlega að aflétta höftum á lengstu skuldabréfin án þess að líkur séu á því að það hefði mikil áhrif," sagði Arnór.