Markaðsvirði þeirra 14 félaga sem mynda Úrvalsvísitöluna hefur aukist um tæplega 407 milljarða króna frá áramótum eða um 23,6% ef miðað er við lokun markaða í gær, en markaðsvirðið var þá 2.134 milljarðar króna að því er kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka.

"Svo mikil eignaaukning á stuttum tíma er vís til að leiða af sér töluverð eignaverðsáhrif í litlu hagkerfi á borð við hið íslenska, en landsframleiðslan í ár mun sennilega nema tæplega 1.100 milljörðum króna. Því er um að ræða eignaaukningu á þessum fyrstu 6 vikum ársins sem nemur um 37% af landsframleiðslu ársins. Meirihluti fjárfesta í þeim félögum sem hafa hækkað frá áramótum er innlendur og eignaáhrifin hér á landi meiri fyrir vikið. Þótt í þessum félögum séu nokkrir afar stórir hluthafar þá eru eignarhlutirnir dreifðir og ætla má að áhrifin séu víðtæk. Með hækkun þeirri sem orðið hefur á hlutabréfamarkaði frá áramótum skynjar hinn almenni hluthafi sig betur stæðan en áður og hvetur það til aukinnar neyslu," segir í Morgunkorninu.

Virði fjármálafyrirtækjanna fjögurra, þ.e. Íslandsbanka, Landsbanka, Straums-Burðarás og KB-banka, er tæplega 72% af heildarmarkaðsvirði þeirra félaga sem mynda Úrvalsvísitöluna. Markaðsvirði þeirra hefur aukist um nær 348 ma.kr. frá áramótum og skýrir verðhækkun fjármálafyrirtækjanna stærstan hluta af ofangreindri aukningu á markaðsvirði félaga í Kauphöllinni. Með þessum hætti eru fjármálafyrirtækin m.a. drifkraftar hagvaxtarins um þessar mundir segir í Morgunkorni Íslandsbanka