Fjármagnstekjur jukust í fyrsta sinn að raungildi í fyrra. Frá árinu 2007 höfðu þær dregist saman ár frá ári en fyrir þann tíma höfðu þær aukist sífellt milli ára frá árinu 1994. Fjármagnstekjur landsmanna námu alls 348,6 milljörðum árið 2007 en 64,8 milljörðum árið 2012. Þetta kemur fram í grein Páls Kolbeins sérfræðings hjá ríkisskattstjóra í Tíund, fréttablaði embættisins. Skattskyldar tekjur voru samtals um 1.416 milljarðar árið 2007á verðlagi ársins 2012. Í kjölfar bankahrunsins lækkuðu tekjurnar mikið og samfellt í þrjú ár að raungildi.

Raunar höfðu skattskyldar tekjur lækkað um tæpan þriðjung að raungildi árið 2010 þegar þær námu 963 milljörðum. Árið 2012 voru skattskyldar tekjur samtals um 996 milljarðar eða um 420 milljörðum lægri en árið 2007.Stærstan hluta þessarar lækkunar má rekja til minni fjármagnstekna á þessum árum eftir því sem fram kemur í grein Páls.

Um 59% lækkun skattskyldra tekna á árunum 2008 og 2009 voru vegna lægri fjármagnstekna og 76,1% af lækkun skattskyldra tekna árið 2010 mátti skýra með hruni fjármagnstekna frá árinu áður.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .