*

laugardagur, 28. nóvember 2020
Erlent 22. október 2020 19:01

435 þúsund horfðu á AOC spila Among us

Bandarískur þingmaður spilaði vinsælan tölvuleik og streymdi til að hvetja fólk til að kjósa í komandi kosningum.

Júlíus Þór Halldórsson
Ocasio-Cortez er sögð hafa staðið sig nokkuð vel fyrir nýgræðing.
Aðsend mynd

Bandaríkjaþingmaðurinn Alexandria Ocasio-Cortez (gjarnan þekkt sem AOC) flutti sitt jómfrúarstreymi á tölvuleikjastreymissíðunni Twitch í fyrradag.

Ocasio-Cortez spilaði fjölspilunarblekkingarleikinn Among Us – sem er afar vinsæll þessa dagana – og hvatti í leiðinni áhorfendur til að kjósa í komandi forsetakosningum vestanhafs.

Þegar mest lét voru áhorfendur um 435 þúsund talsins, sem tæknimiðillinn The Verge segir að geri streymi hennar meðal 20 áhorfsmestu streymum síðunnar, og sé einungis horft á einstaklinga er það þriðji mesti fjöldi áhorfenda samtímis. Twitch gefur ekki upp heildarfjölda þeirra sem horfðu á streymi Ocasio-Cortez á einum eða öðrum tímapunkti, en ætla má að um sjö stafa tölu sé að ræða á þann mælikvarða.

Viðburðurinn var skipulagður með skömmum fyrirvara, en með henni spiluðu bæði frægir spilarar og annar þingmaður, Ilhan Omar, sem situr í fulltrúadeildinni fyrir hönd Minnesota-fylkis. Ocasio-Cortez er fulltrúi New York-fylkis, og bæði eru þau meðlimir Demókrataflokksins. Sé áhorfendafjöldi þeirra sem með henni spiluðu, og streymdu einnig viðburðinum á sínum síðum, tekinn með, var um yfir 600 þúsund áhorfendur að ræða þegar mest lét.