Félögum í óskyldum rekstri í eigu viðskiptabanka, sparisjóða og lánafyrirtækja hefur fækkað um sjö frá 1. nóvember síðastliðnum. Þau voru þá 132 talsins en eru nú 125. Félögum sem eru komin í formlegt söluferli hefur þó fjölgað mikið á síðustu þremur mánuðum. Þau voru 14 í nóvember en eru nú 45.

Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag en blaðið hefur undir höndum nýjar tölur Fjármálaeftirlitsins (FME) um tímabundna starfsemi lánastofnana.

Í blaðinu kemur fram að samkvæmt lögum mega fjármálafyrirtæki einungis eiga félög í óskyldum rekstri í 12 mánuði hið mesta án þess að leita eftir undanþágu vegna eignarhaldsins. Í tölum FME kemur fram að 26 þeirra félaga sem eru í eigu fjármálafyrirtækja séu innan upphaflegra tímamarka. Önnur hafa sóst eftir, og fengið fresti.