Hagnaður Sæplasts fyrir skatta á fyrri helmingi ársins var 585,3 milljónir króna og hagnaður tímabilsins eftir skatta 488,4 milljónir króna.
Rekstur Sæplast samstæðunnar samanstendur nú aðeins af þremur rekstrarfélögum sem öll eru í umbreytingarferli auk móðurfélagsins. Rekstrartekjur dótturfélaganna þriggja ásamt tekjum af starfsemi móðurfélagsins voru 741,3 milljónir króna og hagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 12,4 milljónir króna. Söluhagnaður eignarhluta í félögum og annarra eigna nam samtals 714,4 milljónum króna. Hrein fjármagnsgjöld námu 90,4 milljónum króna.

Niðurstöður efnahagsreiknings eru 2.849 milljónir króna þar af eigið fé 743 milljónir króna og er eiginfjárhlutfall 26%. Nú á haustmánuðum verða greidd upp hluti skulda félagsins við lánastofnanir jafnframt því að aðrar skammtímakröfu félagsins lækka samhliða og mun það lækka efnahagsreikninginn og styrkja enn frekar eiginfjárhlutfall félagsins.

Rekstur Sæplast Norege sem framleiðir fríholt og baujur úr PVC ásamt flotum fyrir net og nætur var í samræmi við áætlanir um rekstur þess. Nú er unnið að uppsetningu á nýjum framleiðslubúnaði fyrir verksmiðju félagsins en unnið hefur verið að smíði hans undanfarin misseri. Þegar þessi nýji búnaður hefur að fullu verið tekinn í notkun er gert ráð fyrir því að afkoma fyrirtækisins verði jákvæð. Rekstur Sæplast Ålesunds sem framleiðir hverfisteyptar vörur, ker og fleira var erfiður á fyrri hluta árs. Unnið hefur verið að fjölmörgum endurbótum á verksmiðju félagsins og miða þær að því að jafnvægi náist í rekstri félagsins í árslok. Mikil samkeppni hefur ríkt á markaði fyrir einangruð plastker í Norður Ameríku og hefur það bitnað á afkomu Sæplast Kanada. Verulegur árangur hefur náðst í Kanada af þeim hagræðingaraðgerðum sem unnið hefur verið að á undanförnum misserum.