Afkoma Sterling Airlines fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) fyrstu níu mánuði ársins var neikvæð um 877 milljónir króna. Að frádregnum einskiptiskostnaði var EBITDA jákvæð um 163 milljónir króna. Á þriðja ársfjórðungi nam EBITDA Sterling fyrir afskriftir 1.294 milljónum króna, en 1.525 milljónum króna að frátöldum einskiptiskostnaði að því er kemur fram í tilkynningu FL Group.

Afkoma Sterling fyrir skatt á fyrstu níu mánuðum ársins 2006 var neikvæð um 1.402 milljónir króna. Að frádregnum einskiptiskostnaði á fyrstu níu mánuðum ársins nemur afkoma fyrir skatt á tímabilinu -362 milljónum króna. Hagnaður þriðja ársfjórðungs fyrir skatt nemur 1.124 milljónum króna en 1.355 milljónum króna þegar einskiptiskostnaður er frátalinn.

Í fréttatilkynningu FL Group kemur fram að fyrstu níu mánuðir ársins voru Sterling Airlines hagfelldir. "Rekstrarbati félagsins hefur verið stöðugur og mun betri árangur náðist á þriðja ársfjórðungi 2006 en 2005. Afkoma Sterling fyrir afskriftir fyrstu níu mánuði ársins, þegar frá er talinn einskiptiskostnaður, sýnir tæplega 5,9 milljarða króna bata milli ára, en að meðtöldum einskiptiskostnaði er batinn 4,9 milljarðar króna. Afkoma fyrir afskriftir á þriðja ársfjórðungi, án einskiptiskostnaðar, var 1.525 milljónir króna en 1.294 milljónir að honum meðtöldum. Fyrir sama tímabil í fyrra var afkoma hjá Sterling neikvæð um 3.283 milljónir króna. Batinn nemur því 4.638 milljónum króna án einskiptiskostnaðar eða 4.557 milljónir króna að kostnaðinum meðtöldum.

Velta Sterling á þriðja ársfjórðungi var 15.811 milljónir og veltan nemur 36.461 milljón króna fyrstu níu mánuðina 2006," segir í frétt FL Group.

Í tilkynningu FL Group kemur fram að rekstrarbati Sterling fyrstu níu mánuði ársins næst þrátt fyrir að einskiptiskostnaður hafi numið 1.040 milljónum króna, þar af 231 milljón króna á þriðja ársfjórðungi. Það er því ljóst að rekstur Sterling er á áætlun, þó eldsneytisverð hafi hækkað gríðarleg á árinu, tekjur hafi minnkað vegna hitabylgju á Norðurlöndum síðastliðið sumar og áhrifa sem deilur vegna birtinga á teikningum af Múhameð spámanni höfðu á ferðamennsku.

Á árinu 2005 nam samanlagt tap félaganna Sterling og Maersk 9.242 milljónum króna. Gríðarleg vinna hefur verið lögð í sameiningu fyrirtækjanna og er markmiðið að Sterling verði rekið á sléttu á þessu ári. Annað árið í röð hefur Sterling fengið Danish Travel Award sem besta lággjaldaflugfélagið sem þjónar Danmörku og kannanir hafa sýnt að nafn Sterling er með best þekktu vörumerkjum á Norðurlöndum. Horfur í rekstri félagsins fyrir síðasta fjórðung þessa árs og árið 2007 eru því jákvæðar.