Að sögn Ásgeirs Friðgeirssonar, talsmanns Björgólfsfeðga, hafa á milli 5 og 10 aðilar sýnt því áhuga að kaupa enska úrvalsdeildarfélagið West Ham.

Stærsti eigandi West Ham, Hansa ehf., er í greiðslustöðvun en hefur frest til 7. mars til að selja eignir.

Að sögn Ásgeirs hefur verið óskað eftir meiri skuldbindingum frá tilboðshöfum áður en þeim verður hleypt í gögn félagsins. West Ham er eina eign félagsins og því skiptir miklu fyrir niðurstöðuna að eignasala gangi upp.

„Það er erfitt að finna fjárfesta sem eru tilbúnir til að borga eðlilegt verð fyrir félag eins og þetta eins og ástandið er,“ sagði Ásgeir.