Mikil óvissa ríkir um stöðu þeirra framvirku samninga sem útgerðarfélög eru í við bankakerfið. Talið er að upphæðin geti numið 25 til 27 milljörðum króna og á bak við það séu um 50 fyrirtæki. Flestir samningarnir eru í Landsbankanum.

Þessir samningar eru nú staddir inni í þrotabúum gömlu bankanna en ekki er vitað hverjir eru eigendur samninganna. Eðli slíkra samninga felur í sér að meðan einn hagnast tapar annar. Ljóst er að miðað við núverandi stöðu nemur tap útgerðarinnar í landinu fyrrgreindri upphæð þar sem útgerðarfélögin voru að taka stöðu með krónunni. Hverjir voru að taka stöðu gegn henni liggur hins vegar ekki fyrir.

Friðrik Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, sagði í samtali við Viðskiptablaðið að samtökin teldu eðlilegt að samningarnir yrðu feldir niður enda margir samninganna komnir á gjalddaga án þess að bankarnir gætu þjónustað þá. Heimildir Viðskiptablaðsins segja að mörg útgerðafyrirtæki vilji fá að gera samningana upp miðað við gengisvísitöluna 175.